Kæru Kattholtskonur
Við fengum Óskar (29.04.2004-01) í Kattholti í lok nóvember á síðasta ári, svo hann er núna búinn að vera hjá okkur í u.þ.b. eitt ár og mér fannst við hæfi að senda ykkur línu til að láta ykkur vita hvernig hann hefur það.  Óskar flutti með okkur í Borgarnes þegar hann hafði verið í Kattholti í u.þ.b. 7 mánuði, eða frá því hann var bara kettlingur, svo við vorum vöruð við því að það gæti tekið hann svolítinn tíma að aðlagast nýju heimili.
Það var svosem rétt, að hann tók sinn tíma í þetta og var afskaplega var um sig til að byrja með og stökk undir sófa við hverja snögga hreyfingu eða hvert ókunnugt hljóð.  Núna er Óskar hins vegar búin að taka öll völd á heimilinu og það var svo sannarlega biðarinnar og þolinmæðinnar virði og við erum sannfærð um að hann sé besti og skemmtilegasti köttur í heimi.
Þegar Óskar kom heim með okkur úr Kattholti eyddi hann fyrstu dögunum aðallega í öruggu skjóli undir sófa, hann kom þó fram og talaði við okkur ef við lágum eða sátum í gólfinu, en um leið og við stóðum upp fór hann aftur í skjólið sitt.  Fyrstu dögunum með Skara á heimilinu var því aðallega eytt sitjandi á stofugólfinu…
Eftir því sem tíminn leið og Óskar var lengur hjá okkur varð hann öruggari með sig og hætti að skríða undir sófa, heldur kom sér fyrir uppi í sófanum og varð sármóðgaður ef ætlast var til að hann viki fyrir fólkinu á heimilinu.  Hann fór líka fljótlega að fara út, og fer núna út og inn eins og honum sýnist, hann er þó aldrei lengi úti í einu.
Í sumar fluttum við, Óskar átti soldið erfitt með að sætta sig við flutningana en var fljótur að jafna sig.  Núna á hann voðalega fína kattalúgu og hefur lykil að henni svo hann fer út og inn eins og hann vill.  Hann var smá tíma að átta sig á nýju umhverfi eftir flutningana og tók soldinn tíma áður en hann þorði að fara út á nýjum stað en það er komið í lag, nú hleypur hann út og inn og mjálmar hátt og snjallt í hvert sinn sem hann kemur inn, eins og hann sé að láta vita af sér.
Óskar er voðalega latur kisi og vill hafa það rosalega gott.  Þegar við fluttum keyptum við tvo nýja stóla í stofuna og Óskar var fljótur að hertaka þann með fótskemlinum, svo það fer ekkert á milli mála hver er húsbóndi á heimilinu… og þar liggur hann allan daginn, og fram á kvöld en þá fer hann út að skoða sig um.  Stundum fer hann þó í voða stuð og leikur sér, uppáhaldsleikföngin eru litlir loðnir boltar sem við gáfum honum og þegar hann tekur syrpu með boltana er eins og heil fílahjörð sé á hlaupum um íbúðina, slík eru lætin.
Óskari finnst alveg rosalega gott að fá soðinn fiskbita, verður alveg ofboðslega spenntur og mjálmar og mjálmar þegar hann finnur lykt af soðnum fiski og á mjög erfitt með að bíða meðan hann kólnar.  Hann á sitt sæti við eldhúsborðið og verður afskaplega móðgaður ef ekki er dreginn út stóll fyrir hann þegar við fáum okkur að borða.  Það þýðir lítið að bjóða honum sessulausan stól og hann verður svakalega móðgaður ef það eru gestir hjá okkur og ekkert pláss er fyrir hann við borðið.
Ég held það sé alveg óhætt að segja að Óskar hafi það gott á nýju heimili, allavega fær hann næga athygli, klapp og knús og má eiginlega segja að það sé farið með hann eins og lítinn prins, okkur dettur t.d. ekki í hug að setjast í stólinn hans, eða bjóða honum ekki sæti hjá okkur þegar við borðum.
Nú á Óskar von á tvífættu systkini í febrúar, það verður spennandi að sjá hvernig hann tekur því að verða ekki lengur einn um alla athyglina á heimilinu.
Óskari hefur eflaust liðið vel í Kattholti þann tíma sem hann var þar, en ég held hann hljóti að vera sáttur við flutninginn… held honum líði mjög vel hjá okkur. 
Við þökkum öllum í Kattholti kærlega fyrir að leyfa okkur að fá Óskar og fyrir að passa hann allan þann tíma sem hann var hjá ykkur.
Kær kveðja
Sigrún, Kári og Óskar.