Í dag bjargaði dýravinur yfirgefnum og vannærðum kisum í Kattholt, þar var á ferð lítil saklaus læða og börnin hennar fimm.
Kettlingarnir höfðu fundist í pappakassa við ruslatunnur í Reykjanesbæ og læðan þar nálægt. Auðvelt er að ímynda sér hvernig henni hefur liðið. Öll voru þau sársvöng og tóku hraustlega til matar síns við komuna í athvarfið. Kettlingarnir eru smáir miðað við aldur og munu þurfa að fá aukalega pela til að byrja með. Starfsfólk Kattholts ásamt sjálfboðaliðum munu hlú að þeim eins og öðrum óskilakisum í athvarfinu.
Þetta er langt í frá eina raunasagan sem við getum sagt ykkur. Af nógu er að taka.

Starfsfólkið okkar leggur alla sína krafta í að hugsa um þessi blessuð dýr, sem skilin eru eftir eða yfirgefin af eigendum og lenda á vergangi af þeim sökum. Sömuleiðis hefur sjaldan ef nokkurn tíma í sögu Kattholts verið komið með jafn marga ketti, sem fólk í neyð getur ekki annast.

Kæru dýravinir! Athvarfið er fullt, og það þannig að þótt að jafnaði fari 5-6 kettir alla virka daga á ný heimili bætist sami fjöldi við á hverjum degi og jafnvel enn fleiri.
Það kostar mikla peninga að halda úti athvarfi eins og Kattholti.

Enn og aftur hvetjum við fólk til að sýna ábyrgð. Það þarf að láta taka kettina úr sambandi eða gelda og koma þannig í veg fyrir offjölgun. Nauðsynlegt er líka að merkja kisur og skrá og margt annað þarf að gera sér grein fyrir í sambandi við að halda gæludýr áður en litli sæti kettlingurinn er tekinn á heimilið. Kettir eru lifandi verur EKKI leikföng!
Það er þyngra en tárum taki að horfa upp á hvern einasta dag sem Guð gefur, hvernig komið er fram við saklaus dýr hér.

Að sýna ábyrgð í verki mundi koma í veg fyrir miklar þjáningar allt of margra saklausra dýra.