Er kötturinn þinn örmerktur? Til þess að auka líkurnar á að týndur köttur komist heim er mikilvægt að hann sé örmerktur. Örmerki, sem er á stærð við hrísgrjón, er skotið undir húð á milli herðablaða kattarins. Einnig er mikilvægt að útikettir jafnt sem innikettir séu með merkta ól með upplýsingum um heimilisfang og símanúmer eiganda. Ólar geta dottið af, því þarf líka að örmerkja kettina.

Þegar örmerktur köttur fær nýjan eiganda er mikilvægt að breyta skráningu á örmerki. Í flestum tilfellum er það fyrri eigandi sem þarf að láta breyta skráningunni. Þetta er mikilvægt atriði svo hægt sé að ná sambandi við réttan aðila. Dýraauðkenni.is er miðlægur gagnagrunnur og geymir örmerkingu og eyrnamerkingu dýra. Skrásetning er ódýr og fer fram hjá dýralækni.

 

Týnist kötturinn þinn er gagnlegt að fylgja eftirfarandi sex þrepum:

 

1) Er hann inni? 

Hljómar kjánalega, en í mörgum tilfellum þegar kettir hverfa, finnast þeir heima hjá sér. Kettir eru forvitnir og geta átt það til að troða sér á ólíklegustu staði. Athugaðu alla þá staði þar sem hann gæti hafa lokast inni.

 

2) Kannaðu umhverfi þitt 

Leitaðu í bílskúrnum þínum, geymslu og garði.

 

3) Talaðu við nágrannanna

Gakktu um hverfið og láttu nágrannanna vita að kötturinn þinn sé týndur. Biddu þá um að gá í geymslu, bílskúr og garð. Gagnlegt er að prenta út auglýsingu með mynd af kettinum og helstu upplýsingum um hann, svo sem lit á feldi, merkingu (örmerki og/eða ól), hvaðan og hvenær hann týndist og símanúmer eiganda.  

 

 4) Hafðu samband við Kattholt og dýralæknastofur

Þú getur sent tölvupóst á [email protected] með helstu upplýsingum og mynd af kettinum. Þá er hægt að birta auglýsingu undir „týndar- og fundnar kisur” á heimasíðunni, kattholt.is.

Á heimasíðunni eru myndir af öllum þeim köttum sem koma í Kattholt. Upplýsingarnar um kettina eru settar inn samdægurs. Í Kattholti er skanni sem les örmerki. Þegar óskilaköttur kemur í Kattholt er strax athugað hvort hann sé ör- og/eða eyrnamerktur. Til að auðvelda leit að eiganda er gagnlegt að kötturinn sé skráður á dyraaudkenni.is sem er miðlægur gagnagrunnur og geymir örmerkingu og eyrnamerkingu dýra. Skrásetning er ódýr og fer fram hjá dýralækni.

Hafðu samband við dýralæknastofur í þínu nágrenni til að spyrjast fyrir um köttinn þinn, hvort hann hafi mögulega komið slasaður eða dáinn. 

 

5) Auglýstu eftir kettinum þínum á netinu

Hægt er að senda Dýrahjálp auglýsingu til að birta á heimasíðunni þeirra. Kattholt er á Facebook. Auglýstu líka á kattartengdum síðum á Facebook eins og „Kattavaktin” og „Týnd/Fundin dýr”. Dýraeigendur á Akureyri geta auglýst á Facebook síðu Kisukots.

 

6) Auglýstu í hverfisverslunum

Settu upp auglýsingar í hverfisverslunum. Hafir þú nýlega flutt er gott að setja upp auglýsingar í gamla hverfinu ef ske kynni að kötturinn leiti aftur þangað.

 

 

Við viljum minna kattaeigendur á mikilvægi þess að örmerkja og/eða eyrnamerkja dýrin. Einnig er mjög gagnlegt að setja á þau merkta ól.

 

Munið að gelda eða taka kettina úr sambandi, því ógeld dýr eru líklegri til að fara á flakk og týnast.

 

Heimild: Watson, Rebecca (2010). The cat expert.