Gæta þarf þess að fara með köttinn reglulega í skoðun til dýralæknis, a.m.k. einu sinni á ári. Ráðlegt er að ormahreinsa köttinn á 3-4 mánaða fresti ef kisi er mikið úti við en annars er nægjanlegt 1-2x á ári. Grunnbólusetning gegn kattainflúensu og kattafári fer fram 2svar í fyrsta skipti, með 4 vikna millibili og síðan er bólusett árlega einu sinni. Ef um loðinn kött er að ræða, þarf að kemba honum daglega svo ekki myndist flókar en snögghærðir kettir þurfa minni feldhirðu. Svo þarf að íhuga hvað skal gera þegar kisi nær kynþroska. Kynþroska er oftast náð við 6-8 mánaða aldur en getur verið breytilegt eftir tegund og eftir því á hvaða tíma ársins kettlingurinn er fæddur.

Því miður er það útbreiddur misskilningur að læður þurfi að eiga kettlinga einu sinni á ævinni. Það er einungis til að auka á vandann hvað varðar fjölda heimilislausra katta og aflífanir á óæskilegum kettlingum ár hvert. Hægt er að setja læðu á pilluna eða gera á þeim varanlega ófrjósemisaðgerð og högnar eru geltir. Samtímis er ráðlegt að láta merkja kettina í eyrun með húðflúri. Kettir eiga alltaf að bera ól með merkispjaldi þegar þeir eru utandyra og koma má í veg fyrir nágrannadeilur með því að takmarka útivist katta þannig að þeir séu ekki að ónáða aðra íbúa hverfisins með næturbrölti sínu. Að eiga kött er skuldbinding og enginn ætti að fá sér þetta skemmtilega heimilisdýr nema vera tilbúinn til að axla þá ábyrgð sem því fylgir.

Hanna M Árnadóttir dýralæknir
Dýralæknastofan í Garðabæ