Í nýjum lögum um velferð dýra segir:

8. gr. Tilkynningarskylda.
Leiki grunur á að meðferð á dýrum brjóti gegn lögum þessum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim skal sá sem verður þess var tilkynna það Matvælastofnun eða lögreglu svo fljótt sem auðið er. Sé mál tilkynnt lögreglu skal hún tilkynna Matvælastofnun um það. Matvælastofnun skal kanna hvort tilkynning sé á rökum reist.
Tilkynnandi skv. 1. mgr. getur óskað eftir því að nafni hans verði haldið leyndu gagnvart öðrum en Matvælastofnun eða lögreglu. Ef líklegt má telja að hagsmunir viðkomandi skaðist ef greint er frá nafni hans skal fallast á ósk um nafnleynd. Ef ekki eru forsendur til þess að fallast á nafnleynd er tilkynnanda heimilt að draga tilkynningu sína til baka. Ákvörðun Matvælastofnunar um nafnleynd er heimilt að skjóta til ráðherra innan tveggja vikna frá tilkynningu ákvörðunar. Leiðbeina skal tilkynnanda um rétt hans til að kæra ákvörðun Matvælastofnunar.

9. gr. Tilkynningarskylda þeirra sem hafa afskipti af dýrum.
Hverjum þeim sem stöðu sinnar og starfa vegna hefur afskipti af málum dýra og verður var við aðstæður eins og lýst er í 1. mgr. 8. gr. er skylt að tilkynna það Matvælastofnun.
Sérstaklega er dýralæknum og heilbrigðisstarfsmönnum dýra skylt að fylgjast með meðferð dýra, aðbúnaði dýra, aðgerðum og meðhöndlun dýra, dýrahaldi, aðferðum við dýrahald og útbúnaði dýra eftir því sem við verður komið og gera Matvælastofnun viðvart ef ætla má að aðstæður dýrs séu með þeim hætti sem lýst er í 1. mgr. 8. gr.
Tilkynningarskylda samkvæmt þessari grein gengur framar ákvæðum laga eða siðareglna um þagnarskyldu viðkomandi starfsstétta.

10. gr. Geta, hæfni og ábyrgð.
Hver sá sem hefur dýr í umsjá sinni skal búa yfir eða afla sér grunnþekkingar á þörfum og umönnun viðkomandi dýrategundar og skal enn fremur búa yfir nægjanlegri getu til að annast dýrið í samræmi við lög þessi.

Lög um velferð dýra.