Sæl og blessuð Sigríður og samstarfsfólk.

Við viljum láta ykkur vita að það hefur ekki komið ein einasta fyrirspurn um Depil, sem við auglýstum  hjá ykkur þann 17.04.2006. Við hengdum upp auglýsingablað bæði í búðinni á Gullteigi og í söluturninum Donald við Hrísateig/Sundlaugaveg. En þessar auglýsingar báru engan árangur.

Depill er búinn að vinna hjörtu okkar allra. Eiður (Eddi), sem tók hann inn til sín ætlar að eiga hann. Reyndar er Depill löngu búinn að ákveða aða eiga Edda. Snúður gamli kötturinn hans Edda hefur ekki verið neitt sérstaklega hrifinn af þessum aðskotaketti, en það eru engin slagsmál, bara smá “söngur” svona öðru hvoru. Simbi, kötturinn okkar er ekki hrifinn af Depli heldur, því hann er búinn að vera kostgangari hjá Edda í mörg ár, þar fær hann nefnilega ýmislegt sem er ekki í boði hérna uppi hjá okkur. En læðan okkar hún Snotra fer alls ekki niður í kjallara til Edda, hún er svo óttalega taugaveikluð!

Depill lenti í miklum hremmingum um miðjan maí. Hann virðist hafa klemmt vinstri afturfótinn með þeim afleiðingum að hann fékk mjög stórt svöðusár og klemmdar tær. Vesalings Depill var mjög illa haldinn þegar hann skreið inn um kattalúguna hjá Edda. Um leið og við Guðmundur komum heim úr vinnunni var farið með Depil á Dýrlæknastofu Dagfinns. Þar fékk hann mjög góða hjálp, kom svo heim með miklar umbúðir,hálf vankaður eftir svæfinguna og með kraga, sem gerði ekki mikla lukku þegar hann fór að ranka við sér!! En Depill var svo rólegur og góður að hann gat losnað við kragann eftir nokkra daga!!  Fyrstu vikurnar eftir slysið fórum við með hann þriðja hvern dag til að láta skipta um umbúðir. Nú næstum einum og hálfum mánuði eftir slysið er sárið gróið. Depill vann hug og hjörtu starfsfólksins á dýralæknastofunni, hann er alveg sérlega ljúfur og góður köttur!

Depill elskar Edda og vill helst ekki af honum sjá. Depill var mikill útköttur,en núna fer hann rétt aðeins út í garð. Reyndar stakk hann af tvisvar meðan hann var með stóru umbúðirnar. Í fyrra skiptið var hann í burtu í næstum heilan sólarhring en í seinna skiptið í nokkra klukkutíma. Eftir þetta hefur hann bara verið hérna heima við húsið. Þegar hann stakk af í fyrra skiptið urðum við mjög hrædd um hann og fórum að leita að honum en fundum hann ekki, en hann kom heim sjálfur!!

Þessar slysfarir hafa verið kostnaðarsamar fyrir Edda en það kom ekki til greina að láta svæfa Depil eins og kannski einhver hefði gert undir þessum kringumstæðum. En Eddi er mikill dýravinur og má ekkert aumt sjá og hann gat ekki hugsað sér að láta svæfa köttinn. Og nú er svo komið að Depill á heima í kjallaranum hjá Edda sínum!

Kær kveðja til ykkar allra í Kattholti frá heimilisfólkinu að Laugateigi 27.